Ferðalag

Nú er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast en ég ætla að reyna að leyfa ykkur að fylgjast með nýjasta ferðalaginu eins og hægt er.

Við lögðum af stað frá KEF til LHR á föstudaginn 31. okt kl. 16:30 - þegar við vorum búin að sækja töskurnar okkar fórum við beina leið í terminal 3 þar sem við fórum um borð í Gul Airline flugvél á leið til Delhi í Indlandi.  Þar sem Gulf Airways er starfrækt frá ríkinu Bahrain var millilent þar.  Næturflugið okkar var eins og við var að búast, tíðindalítið.  En þegar við komum hingað til Bahrain - þaðan sem þetta er skrifað - þá fórum við á þjónustuborðið hjá Gulf Air og athuguðum hvort væri hægt að komast á hótel en ég hafði s.s. haft samband við flugvöllinn í vikunni og fengið þær frábæru frétti að þegar farþegar væru 10 tíma eða meira In Transit þá býður Gulf Air farþegum uppá frítt hótel (ef eitthvað er laust), frían mat og fríar ferðir fram og til baka frá flugvellinum og að flugvellinum aftur.  Bara FRÁBÆRT!!!  

Þetta var ekkert mál - við fengum voucher, fórum í pass control og vorum afgreidd þar með visa til að vera lögleg í landinu (borguðum ekkert fyrir það heldur!) og vorum komin í minibus áleiðis á hótelið á bara 10 mínútum.  Við fengum s.s. eitt herbergi þrjú saman, það átti að vera stórt fjölskylduherbergi, svo þegar við komum voru bara tvö rúm og mín fór niður til að ath hvað væri hægt að gera í því - það átti s.s. eftir að koma með aukarúm til okkar.  En - stúlkan í gestamóttökunni spurði hvort við værum ekki öll þrjú skyld og ég svaraði nei aldeilis ekki, ekkert okkar væri skylt og hún fékk næstum flog :-)  það var svo frábært að sjá á henni svipinn, ímyndið ykkur - þau voru tvö á herberginu á meðan ég var niðri almáttugur - það var eins og það hefði verið framinn á okkur stórglæpur og hún reddaði öðru herbergi fyrir herramanninn í ferðinni, hann Loft.  Við Arna vorum þá bara tvær í stóru herbergi.  Auðvitað var þetta betra en hitt hefði bjargast í einn dag - ekki einu sinni það - 12 tíma því við komum á hótelið um 09 og áttum að fara um 21 ... 

Við lögðum okkur aðeins til hádegis, fórum svo í hádegismat sem var frábært hlaðborð og síðan í göngutúr. Að vísu fórum við með leigubíl í miðbæinn og löbbuðum þar í næstum þrjá tíma í rúmlega 30 stiga hita, þá var þetta bara orðið gott og við öll orðin frekar mikið þreytt.  Við fundum okkur þá leigubíl og fórum til baka - en við hliðina á hótelinu sem við vorum á var veitingastaður "Bennigans" sem hljómaði í okkar eyru eins og eitthvað írskt og fórum við þar inn til að athuga hvort hægt væri að fá eins og einn öl í þessu landi?  Mikil ósköp - margar tegundir, Heineken, Stella, Fosters o.s.frv. rosalega var það gott!

Nú síðan var bara haldið aftur á hótelið, lagt sig í smástund, sturta, pakka aftur í handfarangurinn (hinn varð eftir á flugvellinum) og svo í kvöldmat og á flugvöllin þar sem við sitjum núna öll þrjú og erum að vinna á tölvurnar okkar - fluginu okkar seinkaði um hálftíma og flugvöllurinn hér er kannski svipaður að stærð og Keflavík þó hann sé aðeins öðru vísi í laginu en hér er dýrt!  Dior maskari kostar hér um 4.000 krónur! 

Ég held áfram að skrifa þegar við erum komin til Indlands til Delhi.

kær kveðja til allra á Íslandi


Evrópuþing JCI

Jæja, þá kemur annar pistil frá Turku frá mér.

 Nú er þreytan farin að segja til sín eftir langar nætur og langa daga.  Mikið búið að ræða á General Assembly (þingfundur) og er það nú bara gaman þegar maður kemst inní þetta allt.

Ekki má gleyma skemmtilegum kvöldum sem Danir sáu um svo ágætlega í kvöld - en auðvitað spillti ekki að við vorum öll með Brennivín og Tópas og Opal til að gefa - hver með amk einn lítra og lakkrís með.  Ekki þarf að orðlengja að við vorum mjög vinsæl og þegar skemmtuninni var lokið þá var þótt undarlegt megi viraðst allt áfengið okkar búið!   Það voru fleiri en Danir sem voru að aðstoða Danina þannig að þarna voru líka Norðmenn og gáfu þeir lambakjöt og álaborgar Akvavíti með.

Það eru hins vegar aðrar fréttir frá okkur hér á íslandi en það er að það er orðið opinbert að við munum eiga kandídat í Vice President of JCI fyrir árið 2009!  Það er Arna Björk Gunnarsdóttir sem er búin að vera frá 1998 og varð senator 2005.

Óskum við henni öll héðan frá Turku alls hins allra allra besta með framboðið og næsta ár.

Til hamingju Arna


Evrópuþing JCI í Turku Finnlandi

Nú er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast - en ef ekki er tilefni til núna þá er það aldrei!

JCI er bara frábærasta hreyfing sem til er (þekki svo sem ekki margar aðrar en...) það sem boðið er uppá er geggjað.  Á hverju ári er Evrópuþing sem er sem sagt núna í Turku í Finnlandi, á næsta ári verður það í Budapest í Ungverjalandi og  2010 í Arhus í Danmörku.  Síðan er boðið uppá heimsþing sem verður núna í Nýju Dehli á Indlandi í nóvember og á næsta ári í Túnis! Vá.

Ég er í því hlutverki í ár að vera landsforseti og þvílíkur heiður það er með þá frábæru félaga sem við eigum á Íslandi og að vera fulltrúi þeirra er mikil ánægja.  Núna erum við 14 á þinginu sem flottur hópur af frábærum félögum!  Tveir eru búnir að vera á mjög svo strmbnu námskeiði í því að verða betri leiðbeinendur en við gerum  jú mjög mikið af því að vera með námskeiðahald.  En það sem er í boði hér er stórkostlegt fyrir félagana mína, alls konar námskeið á daginn, ræðukeppnir einstaklinga - þar sem við eigum auðvitað frábæran fulltrúa - svo er rökræðukeppni þar sem við munum örugglega eiga frábært lið, svo eru kvöld skemmtanir og kvöld partý, - ekki má svo gleyma góðan dag partýunum sem oft hafa verið kölluð "after party" og jafnvel "after after party" en heita hér after party og good morning party!  þannig að þeir sem koma hingað bara til að skemmta sér geta haft nóg að gera jafnt á við þá sem komu til að fara á námskeið og fleira slíkt.

Ekki má svo gleyma að hér verða yfir 2000 JCI félagar frá öllum heiminum en þó flest frá Evrópu.  Nokkrir koma á morgun frá Suður Kóreu, hér eru nokkrir Japanir, Brasilíumenn, Ameríkanar og svo frá flest öllum löndum Evrópu en JCI hreyfingin er í lfokki stærstu félagasamtaka sem starfa óháð stjórnmálasamtökum enda erum við með yfir 115 aðildarlönd, reyndar hef ég heyrt að einungis Rauði Krossin og Rauði hálmáninn, ásamt Olympíuhreyfingunni séu í fleiri löndum en við!

En - þið heyrið meira frá mér á morgun eða hinn.

kveðja frá Finnlandi,

Birgit Raschhofer
Landsforseti JCI Íslands 2008


Íbúðalánasjóður

Hvenær fer svo íbúðalánasjóður að endurlána ?  þ.e. lána til endurfjármögnunar til þeirra sem voru nógu ruglaðir að láta glepjast af loforðum bankanna á sínum tíma?  en sjá nú fram á að vextir munu hækka geigvænlega á næstunni hjá þeim sem fyrstir tóku lánin.  Ég heyrði í gær að spurt væri að mig minnir á alþingi eða því kastað fram að ríkið verði að gera eitthvað fyrir þá sem tóku gengistengd lán - en hvers vegna á að mismuna lánþegum landsins?  hver er munurinn á gengistengdu láni og íbúðaláni hjá bönkunum sem voru með svo hagstæðum vöxtum en verða væntanlega svimandi háir á jafnvel þessu ári eða næst...  Þá þyrftu nú ansi margir á því að halda að fá lán hjá Íbúðalánasjóði til að bjarga sér úr slíkum vanda.  Spurning að alþingi spái í þetta áður en þeir lofa þeim sem tóku gengistengd lán gulli og grænum skógum.
mbl.is Fasteignasalar óska eftir fundi með félagsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Góðar fréttir heyrast líka úr fjármálaheiminum í dag! 

Spurning - hvenær fær íbúðalánasjóður heimild til endurfjármögnunar fyrir "bjána" sem létu glepjast af gylliboðum bankanna þegar þeir komu inná markaðinn???  og sem vilja fara aftur frá bönkunum og til íbúðalánasjóðs???   það væri nú gaman að heyra hvort margir myndu skipta yfir aftur.  (við maðurinn minn erum s.s. í þessum hópi "bjána" og margir sem við þekkjum)


mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti dagurinn á EPM í Krakow á enda

Fyrsti dagur EPM í Krakow er á enda og ég ætti auðvitað að vera löngu sofnuð...  Klukkan er núna að verða 01:30 og ég þarf að vakna kl: 06:30... svona eru fundirnir okkar!

Mikið rosalega er þetta búinn að vera góður dagur!  Við Loftur fórum í bæinn til að skoða og versla nokkra minjagripi - mig vantar reyndar ferðatösku en það er önnur saga - en almáttugur - ekki koma hingað til að versla!!!  Hér er æðislegt mall og þvílíkt stórt - gæti verið í henni Ameríku! og flott líka - en verðið er alveg eftir því! Þannig að við Loftur röltum í miðbæinn og fórum þar í minjagripaverslun þar sem "dót" var fundið handa litlu dótturinni (4ára) og svo í kristalsbúð þar sem rest af minjagripum var keypt! Ætli við komumst nokkuð meira út i svona leiðangra? er líka allt í lagi.

En kl. 14 byrjaði fyrsti fundurinn og hann var eins og annað mjög áhugaverður.  Heimsforsetinn okkar Graham Hanlon tók m.a. til máls og fjallaði hann m.a. ítarlega um að við séum mjög svo pólitísk hreyfing því í einkunnarorðunum sem við vinnum eftir eru mjög pólitískar setningar eins og að "lög skuli ráða fremur en menn" og að "skipting gæðanna verði réttlátust við einstaklingsfrelsi og frjálst framtak" honum voru þessar setningar mjög umhugaðar því þær eru í eðli sínu pólitískar.  Þær segja við aðhyllumst ekki kommúnisma - það er ein leið til að segja það sem hann var að útskýra fyrir okkur - enda er maðurinn lögfræðingur - amk eftir því sem ég best veit - en starfsstéttir eru mjög sjaldan ræddar hjá okkur og við getum verið búin að þekkjast í dágóðan tíma áður en okkur dettur í hug að spyrja að þessu sem er okkur svo mikilvægt - en hvað um það.  Graham sagði að í lögunum okkar stendur að við séum "non partisan political organization" sem er jú allt annað mál.  Við erum ekki flokksbundin!!!  En vissulega er pólitík í öllu sem allir gera ekki satt?

Síðan kynnti Zsolt fyrir okkur ýmis prógrömm sem eru á dagskránni hjá JCI og það eru verkefni sem við þekkjum mæta vel heima - TOYP og BBP m.a.  En hann kynnti sérstaklega vel e-world sem einungis JCI félagar hafa aðgang að og maður minn - verður þetta flott þegar allt verður komið upp.   Tómas mun segja öllum JCI félögum meira af því eftir að við komum heim og segjum honum allar fréttirnar!  En það má virkilega segja vá! ekki nóg með að þetta sé flott prógramm - nei - það er ótrúlegasta tölfræði sem er hægt að taka þarna úr og við getum notfært okkur - á Íslandi sem og á heimsvísu - við getum fengið upplýsingar hversu margir í Noregi eru að nota e-world 97% allra félaga og í Austurríki 7% þetta er bara til dæmis!!! bara FRÁBÆRT.

Síðan var farið á Kaiser Jozef að borða en það er veitingastaður sem heitir í höfuðið á honum hér - frábær pólskur matur!

Svo til baka og á námskeið í GPS - útskýring á því verður að bíða þangað til þið farið sjálf á þetta námskeið - en þvílíkt flott.

Svo barinn í "smá" stund - varð óvart að tveim tímum - þá er sturtan eftir og tölvupóstur dagsins og nokkrar blogg línur og að endingu góða nótt!!!  sofið vel heima á Íslandi.

Kær kveðja til ykkar allra

Birgit Raschhofer
Landsforseti JCI Íslands 2008


Ferðalag til Krakow

Þá er hinu skemmtilega ferðalagi til Krakow lokið - þ.e. við erum komin á staðinn! :-)

Loftur viðtakandi landsforseti og ég lögðum af stað í gærmorgun um kl. 04 og vorum komin hingað til Krakow um kl. 21 að hérlendum tíma.  Þá vorum við búin að fljúga til Stanstead, taka rútu til Gatwick - tekur bara 3 klst og við vorum sammála um að sakna þess ekki að þurfa ekki að fara með rútu aftur á bakaleiðinni! jæja en svo komum við til Gatwick, og aldrei kom brottfararhliðið í ljós en - svo kom það loks og þá var klst seinkun.  Það var svo sem í lagi því þá höfðum við tíma til að kíkja á Bacardi bar sem var að kynna Bacardi Superior Mojito - ekki slæmt skal ég segja eftir allt þetta ferðalag!  og alveg kominn tími til að fá sér svolitla hressingu. 

Þegar við komum til Krakow var svo "Welcome Committee" eins og er alltaf þegar maður ferðast í opinberum JCI erindagjörðum.  Við vorum fyrst úr hópnum sem var að koma ca á sama tíma og þurftum við því að bíða í tæpa klst eftir hinum, en það var allt í lagi.  En mikið var samt gott að komast á hótelið. Fínt 4* hótel nálægt miðborginni.

Rosalega var gaman að hitta fólkið aftur - það voru ekki allir komnir og fleiri að koma í dag - en þarna á meðal sem við Loftur hittum í gærkvöldi voru, Dominiek Varaheimsdorsetinn okkar, fullt af EDC fólki m.a. Ann frá Monaco og Rien frá Hollandi.  Svo var þarna secretary general frá Austurríki, Landsforsetar Möltu - Chris, Skotlands - Mel, Belgíu - An, og fullt af öðru fólki sem við þekktum frá fyrri þingum og fundum - FRÁBÆRT!!! :-)

Þetta finnst mér alltaf meira og meira skemmtilegt við að vera í JCI - það eru ferðalögin og allt fólkið sem maður kynnist - VÁ - bara eitt orð frábært.

Skrifa meira seinna - fylgist bara með! :-)


Snilli !

Þetta er auðvitað tær snillimennska!
mbl.is Reykingahús úr snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dáinn?

Ömurlegt að heyra svona fréttir.  Maður hugsar um það hvað flugmaðurinn hafi nú verið að hugsa á leiðinni í sjóinn vitandi að hann væri að deyja eftir kannski eina eða tvær mínútur. 

Pæliði bara í því að það að fljúga svona og missa afl, hrapa í raun niður, og lenda í sjónum.  Ölduhæðin var víst fjórir til sex metrar - það þýðir að ölduhæðin var svona cirka eins og þriggja hæða blokk!   Það að fljúga á svona öldur er víst eins og að keyra á steypu! Það er allt búið undireins!  Kannski er ömurlegast að vera eftirlifandi og nákominn ættingi?  Sá sem fer, veit að hann er að fara og mun aldrei aftur hafa nokkrar áhyggjur í heimi því eftir nokkrar verði hann dáinn - en ættingjarnir sem fengu ekki tækifæri til að segja bless?  og fá kannski aldrei?  Hvað eiga skipin að geta fundið í svona ólgusjó? 

Bara hægt að segja ömurlegt og sendum samúðarkveðjur til ættingja sem fá jafnvel aldrei lík í hendurnar til að grafa en verða að fara á haf út þegar um hægist til að kveðja á þeim stað þar sem er áætlað að vélin hafi farið niður.


mbl.is Leit mun hefjast í birtingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsröðunin í lagi?

Jæja - þessi blessuð kona veit greinilega hvernig forgangsröðunin á að vera í heiminum!  Bjórinn fyrst - barnið svo!

 Nei í allri alvöru talað - um helgina sá ég ekki svona gróft dæmi en það voru tvö börn í aftursæti á bíl og annað var greinilega í belti en hitt ekki og ég var að hugsa um að hringja á lögregluna...  en ákvað svo að mér kæmi þetta ekki við - en kemur svona hegðun okkur kannski við í þjóðfélaginu?

Lögin okkar segja að börn eigi að vera fest í bílstól eða öðrum öryggisbúnaði (veit ekki alveg hvernig orðalagið er) en þau segja líka að fullorðnir eigi að vera í bílbelti.  En er eitthvað gert?  Hversu marga þekkir þú sem þetta lest sem nota sjaldan eða aldrei bílbelti? 

Eigum við að hringja í lögregluna þegar við sjáum að börn þar í eru laus og liðug en ekki einu sinni spennt í bílbelti?

Vita það ekki allir að barn sem er laust í bíl og fær aftan á sig annan, getur skollið laust með andlitið í framsætið og hálsbrotnað ?  Er það kannski það sem fólk vill sem nennir ekki að þrasa við börnin sín yfir bílbeltanotkun?  Það kemur tímabil hjá öllum börnum fyrr eða síðar þar sem þau reyna að vera með múður yfir þessu.  Við sem foreldrar verðum hreinlega að vera stundum föst á okkar og ekki láta undan! ...

Gaman væri að heyra hvað fólki finnst ...


mbl.is Bjór í belti en ekki barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband